top of page
B&B
Sandra Erlingsdóttir

Ég var 15 að verða 16 ára þegar ég greindist með lystarstol. Þetta byrjaði allt saman á því að ég ætlaði bara að passa betur upp á mataræðið mitt og borða hollara, svo 2 mánuðum seinna sá ég það þegar ég steig á vigtina að ég hafði misst 6 kíló og hugsaði með mér “vá þetta er rosalega auðvelt”. Þegar leið á tímann byrjaði ég svo að minnka matarskammtana mína sem urðu svo alltaf minni og minni. Ég barðist við sjúkdóminn í um það bil 1 ár en samt sem áður er ég enn þann dag í dag að berjast við sjúkdóminn og mun hann fylgja mér alla ævi. Andlega séð leið mér rosalega illa og vanlíðan ríkti yfir mér. Ég lét það alveg hrikalega fara í taugarnar á mér. Einn laugardaginn ákvað mamma mín að vera góð við mig og kaupa uppáhalds súkkulaðið mitt, það endaði með því að ég fór öskrandi og grátandi inn í herbergi því ég var búin að ákveða að taka ekki neinn nammidag í þessari viku. Ég lét allan pirringinn bitna á mömmu minni og þurfti hún að þola ansi mikið, hún segir að það hafi komið eitthver ný Sandra sem hún þekkti ekki.

Okkur fjölskyldunni finnst rosalega gaman að æfa saman og erum við dugleg að gera það. Á þessum tíma hinsvegar vildi mamma ekki leyfa mér að fara út að hlaupa með sér til þess að ég myndi halda í sem mestar kaloríurnar fyrir líkamann. Það sem kveikti svo mest á mér var það þegar pabbi minn labbaði út af lyftingaræfingu hjá okkur og sagði “Sandra við getum bara gleymt þessu ef þú ætlar ekki að borða”, þetta var þá fyrsta skiptið sem ég viðurkenndi það fyrir sjálfri mér að ég væri veik. En pabbi hefur fylgt mér í gegnum allar styrktaræfingar síðan ég var 11 ára.
 Ég fór ekki á blæðingar í 9 mánuði, ég var kominn með skallablett, mikið af hárum á líkamanum þar sem líkaminn hafði svo litla fitu til að hlýja sér, líkaminn var allur hálf fjólublár þó helst fingur og læri og einnig fór meltingarkerfið í algjört rugl, meltingar kerfið mitt er einnig ennþá í miklu veseni og ég held að það eigi aldrei eftir að lagast. Á meðan að ég var veik fann ég ekki fyrir neinum fordómum né vera dæmd og er ég mjög þakklát fyrir að þetta hafi ekki staðið yfir á Íslandi heldur bjó ég annarstaðar. Þegar ég kom til Íslands leið mér alls ekki vel og hver og ein manneskja sem ég sá sagði ekki “gaman að sjá þig” heldur “hvað er að sjá þig”.  Bataferlið hjá mér gekk vel þegar ég áttaði mig á þessu sjálf og hugsaði að ég þyrfti núna að ákveða það hvort ég vildi spila handbolta ennþá, mamma og pabbi stigu mjög snemma inní þetta sem er mjög jákvætt því annars hefði þetta bara haldið áfram og áfram. Mamma og pabbi eiga allan þátt í mínu bataferli og er ég þeim óendanlega þakklát fyrir það. Andlega séð mun þetta fylgja mér alla tíð þó svo að þetta minnki með tímanum.
bottom of page